Saga hússins

Húsið Tjarnarbíó er rúmlega aldar gamalt, reist árið 1913. Í því hefur farið fram margvísleg starfsemi. Það var í upphafi íshús, en frá því á árum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur það öðru fremur verið nýtt sem kvikmyndahús og leikhús.

Frá árinu 1995 hefur Bandalag sjálfstæðu leikhúsanna (SL) rekið húsið. Fyrir nokkrum árum voru gerðar miklar breytingar á leiksviði, áhorfendasal og starfsaðstöðu allri ásamt því að viðbygging með kaffihúsi var reist við norðurhliðina. Í þeirri mynd var Tjarnarbíó opnað árið 2010 og rættist þá gamall draumur margra um sérstakt leikhús fyrir sjálfstæða leikhópa í Reykjavík.


Tjarnarbíó hið eldra

Þegar Íslendingar tóku að flytja út ísaðan fisk snemma á síðustu öld þurftu þeir að reisa sérstök hús til ístöku. Tjörnin var tilvalinn staður til þess, enda veðurfar þá kaldara en nú er og sjaldgæft að Tjörnina frysti ekki.


Þegar þessi starfsemi var blómlegust stóðu þrjú íshús við Tjörnina og var þetta hús eitt þeirra. Annað húsanna, Björninn, eyðilagðist í bruna, en þriðja húsið stendur enn og hýsir nú Listasafn Íslands. Hafa húsin tvö því bæði lokið þjónustu sinni við atvinnulífið og þjóna nú listunum einvörðungu.


Árið 1942 hóf Háskóli Íslands bíórekstur í húsinu og voru þá gerðar á því umfangsmiklar breytingar. Bíóið nefndist Tjarnarbíó og tók tæplega fjögurhundruð manns í sæti. Reykjavík var þá að mestu vestan og norðan Hringbrautar og var Tjarnarbíó þriðja bíóið sem starfrækt var í bænum; fyrir voru aðeins Gamla bíó og Nýja bíó. Reksturinn gekk mjög vel og aflaði Háskólanum svo góðra tekna að hann gat ráðist í að byggja stórt og glæsilegt kvikmyndahús, Háskólabíó, sem var opnað árið 1961.


Filmía

Laugardaginn 1. nóvember árið 1953 streymdi fólk inn í Tjarnarbíó og beið þess að kvikmyndasýning hæfist. Þegar fólk kom í miðasöluna keypti það ekki miða á myndina eingöngu heldur árskort að sýningum fyrsta kvikmyndaklúbbs sem starfræktur var á Íslandi. Var slíkur áhugi á þessari nýbreytni að biðröð myndaðist langt út eftir Tjarnargötu.


Myndin, sem sýnd var þennan dag, er eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar, Heilög Jóhanna eftir danska leikstjórann Carl Dreyer. Leikin var rússnesk píanótónlist undir sýningunni. Kvikmyndaklúbburinn hét Filmía og lifði í ellefu ár. Allan þann tíma starfaði hann í Tjarnarbíói ef frá er talið eitt ár í Stjörnubíói. Með honum hófst starf kvikmyndaklúbba hér á landi. Má segja að stefnuskrá Filmíu hafi orðið fyrirmynd annarra klúbba sem á eftir komu: að vekja fólk til vitundar um að það hefðu verið gerðar betri myndir en almennt voru sýndar í kvikmyndahúsum borgarinnar og að þroska þannig kvikmyndasmekk þjóðarinnar.


Framsækið leikstarf eftir 1960

Þegar afráðið var að Háskólinn færi burt með bíóreksturinn skömmu fyrir 1960, ákvað Reykjavíkurborg að nýta húsið undir lista- og menningarstarf ungs fólks í borginni. Tók Æskulýðsráð þá við rekstri hússins og annaðist hann í þrjú ár.


Á þeim tíma tóku tveir leikflokkar til starfa í húsinu sem nú var gefið nafnið Tjarnarbær. Annar þeirra var stofnaður að tilhlutan Æskulýðsráðs og nefndist Leikhús æskunnar. Hann varð ekki langlífur, en náði þó að setja á svið leikrit Friedrichs Dürrenmatts, Herakles og Ágíasarfjósið, og dagskrá með köflum úr verkum Shakespeares. Þá sýndi hann leikrit Odds Björnssonar, Einkennilegur maður, og fór með það í leikför um landið.


Mun frægari í leiklistarsögunni er hinn, leikhópurinn Gríma. Fyrir daga Grímu voru flestir leikflokkar, sem stofnaðir höfðu verið utan stóru leikhúsanna, Leikfélags Reykjavíkur og Þjóðleikhússins, reknir í gróðaskyni og urðu fæstir langlífir. Gríma starfaði hins vegar frá upphafi af miklum metnaði og markaði sér skýra listræna stefnu. Þarna var saman komið ungt fólk, leikarar, leikskáld, leikstjórar og aðrir leikhúslistamenn, fólk sem margt átti eftir að setja sterkan svip á leiklist næstu áratuga. Þetta fólk var ósátt við margt í starfi stærri leikhúsanna, fannst þau skorta þor til að veita ungum íslenskum leikskáldum brautargengi og vera gamaldags í vali á erlendum verkum. Úr þessu vildu Grímuliðar bæta og tókst það í raun mjög vel miðað við allar aðstæður.


Oddur Björnsson (1933 – 2013) og Guðmundur Steinsson (1926 – 1996) voru um langt árabil meðal fremstu leikskálda þjóðarinnar. Þeir höfnuðu báðir hefðbundnu raunsæisformi leikhússins og sóttu áhrif og fyrirmyndir til framsækinnar samtíðarleiklistar og leikritunar í Evrópu. Þegar Gríma frumsýndi nokkur af fyrstu verkum þeirra vöktu þau verulega athygli sem varð þeim báðum ómetanleg hvatning. Meðal þekktra verka Odds má nefna Hornakóralinn, Dansleik, Eftir konsertinn og Þrettándu krossferðina. Meðal verka Guðmundar eru Lúkas, Sólarferð, Stundarfriður og Garðveisla.


Leikfélag Reykjavíkur í Tjarnarbæ

Sjöundi áratugurinn var mikið blómaskeið hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Leikhúsið varð atvinnuleikhús árið 1964 og á næstu árum vann það marga listræna sigra. Leikritaval einkenndist af metnaði og áræðni og nýir íslenskir höfundar fengu byr í seglin. Leikhúsið komst út úr skugga Þjóðleikhússins og veitti því fulla samkeppni. Leikfélagið starfaði eins og jafnan fyrr í Iðnó, en þar varð æ þrengra um það eftir því sem umsvif jukust.

Árið 1964 fékk félagið Tjarnarbæ til umráða og hafði þar aðstöðu næstu ár. Var húsið meðal annars nýtt undir barnasýningar, sem félagið hafði lítt getað sinnt áður, og leiklistarskóla félagsins. Brautskráði skólinn alls fjörutíu nemendur og áttu margir úr þeim hópi eftir að

starfa lengi með félaginu. Litla Leikfélagið varð til á fjölum Tjarnabæjar sem eins konar nemendaleikhús Leiklistarskóla Leikfélagsins. Það hóf starfsemi árið 1968 og setti upp nokkur verk á frekar skömmum ferli.


Fljótlega fór flokkurinn að reyna fyrir sér með samningu eigin verka í hópvinnu, sennilega fyrstur slíkra hópa á Íslandi. Þessar tilraunir risu hæst í stærstu sýningu hans, Poppleiknum Óla, sem sýndur var árið 1970 í samvinnu við hljómsveitina Óðmenn og varð afar vinsæll, einkum auðvitað hjá yngra fólki.


1970 – 2010

Eftir 1970 varð listastarf stopulla í húsinu en fyrr. Háskóli Íslands nýtti það um skeið undir kennslu og um tíma var jafnvel rætt um að rífa það til að rýma fyrir nýju ráðhúsi. Af því varð þó ekki góðu heilli og áttu ýmsir eftir að leita skjóls í húsinu, svo sem Fjalakötturinn, kvikmyndaklúbbur menntaskólanna, listahóparnir Svart og Sykurlaust og Oxsmá, Stúdentaleikhúsið, Herranótt Menntaskólans í Reykjavík, áhugaleikfélagið Hugleikur og Ferðaleikhúsið Light Nights sem lengi hélt úti sýningum á ensku fyrir erlenda ferðamenn.


Húsinu var ekki vel við haldið stærsta hluta þessa tímabils, en um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar fóru viðræður Reykjavíkurborgar og Sjálfstæðu leikhúsanna um að gera Tjarnarbíó að heimili sjálfstæðu senunnar loks að bera árangur og ákveðið var að ráðast í allsherjar endurbætur á húsinu. Framkvæmdir hófust árið 2008 og lauk í október 2010. Ástand hússins var mun verra en talið var í upphafi, auk þess sem að fornminjar fundust. Verkið tók því lengri tíma en áætlað var og kostnaður fór langt fram úr fyrstu áætlunum.


2010 – 2015

Tjarnarbíó var opnað með pompi og prakt árið 2010 eftir breytingar. Upphaflega var gert ráð fyrir því að Sjálfstæðu leikhúsin borguðu Reykjavíkurborg leigu og fjármögnuðu reksturinn að mestu með tónleika-, ráðstefnuhaldi og útleigum fyrir veislur og aðra viðburði. Leikhópar áttu einnig að borga leigu fyrir að æfa og sýna í húsinu. Fljótlega varð þó ljóst að það myndi ekki ganga upp. Annars vegar vegna hljóðvistarvandamála, en tveir fyrstu tónleikarnir eftir opnun voru með hljómsveitunum Ghostigital og Skálmöld og nötruðu nærliggjandi íbúðir, enda Tjarnarbíó í íbúðabyggð sambyggt íbúðum á báðar hendur. Hins vegar varð strax ljóst að fæstir leikhópar réðu við að greiða uppsetta leigu. Húsinu var því lokað og hafist handa við að reyna að bæta hljóðvist hússins svo það truflaði ekki nágranna. Fyrstu árin eftir opnun gengu því brösulega á draumaheimili sjálfstæðu senunnar.


Árið 2013 tókst loks að ganga frá nýjum 3 ára samningi milli Reykjavíkurborgar og Sjálfstæðu leikhúsanna. Leigan var felld niður og Reykjavíkurborg lagði til 10 milljónir á ári til reksturs á hússinu. Þá loks sprakk starfsemin út. Nýtt fólk var ráðið til starfa og hafist handa við rífa starfsemina upp. Leikárið 2013-2014 voru um 170 viðburðir í húsinu og 6 ný sviðsverk frumsýnd og klárað var að tæknivæða húsið..Leikárið 2014-2015 voru um 200 viðburðir í húsinu og 22 ný sviðsverk frumsýnd. Sumarið 2015 var ráðist í síðasta hluta endurbóta á húsinu. Gömlu svalirnar voru teknar og ein samfelld áhorfendabrekka með 180 sætum þar sem allir sjá vel, tekin í notkun.

Tjarnarbíó gegnir gríðarmiklu hlutverki og má segja að sjálfstæð atvinnu sviðslistastarfsemi á Íslandi væri ekki til nema vegna hússins.

Meðvitund almennings um Tjarnarbíó og sjálfstæðu senuna er að aukast og ekki annað að sjá en að framtíð Tjarnarbíós sé björt.

Tjarnarbíó er rekið með sérstökum styrk frá Reykjavíkurborg.