Guð - leiklestur

Fluttur verður leiklestur á verkinu ,,Guð" eftir þýska leikskáldið Ferdinand con Schirach 22.maí.

Verkið verður flutt af átta leikurum og tekur um 90 mínútur. Eftir lestur verður áhorfendum boðið að kjósa um hvort þau velji með eða á móti.

Inngangsorð um ,,Guð"

Hverjum tilheyrir líf okkar? Okkur sjálfum sem einstaklingum í frjálsu samfélagi, ríkinu, samfélaginu, Guði eða einhverri trúarlegri eða veraldlegri hugmyndafræði? Við ráðum engu um getnað okkar, erfðaeiginleika eða hvort frjóvgunin leiðir til manneskju gegnum fósturvöxt og fæðingu. Lífið mótast svo af uppeldi og aðstæðum í æsku og á yngri árum, af stöðu okkar og menntun, hvar í samfélaginu við lendum, af því hvernig fjölskyldustaða og vinatengsl verða.

Svo líður ævin, líkt og árið. Frá byrjuninni í janúar, fram á maídaga fullorðinsára, til haustsins í september og inn í hægari efri árin, október, nóvember, jafnvel desember. Oft gengur vel, stundum verr, margir hafa sinn lífsförunaut og ástvin fram á efstu ár, aðrir standa einir eftir og hafa misst grunn í lífinu og lífsviljann, eldast mishratt, veikjast fyrr en varir og verða hrumir. Flestir bíða þess sem verða vill og dauðinn nær okkur fyrr eða seinna, en getum við nokkru ráðið um það? Það er eðlilegt að vilja lifa. Við sættum okkur oftast einhvern vegin við hið óumflýjanlega, dauðann, en síður við þjáningu og kvöl ef það yrði hlutskipti okkar.

Ættum við þá að fá að ráða hvenær við kveðjum og hvernig? Eru það jafnvel mannréttindi sem tengjast lífinu og virðingu fyrir því? Þarf ellin að verða hjúkrunarmál, þarf hún að verða tími einsemdar og vonbrigða? Ef maður veikist og ef líkamlegar eða sálrænar kvalir lita dagana, ætti þá að vera hægt að stytta lífið ef það sýnist besta lausnin? Þegar dagarnir veita ekki lengur gleði heldur eru orðnir kvöl, hvað á þá að gera?  Hver ákveður? Er það Guð sem sumir segja að hafi gefið lífið og eigi líka að taka það? Er það samfélagið þar sem maður er orðin byrði, stundum með miklum kostnaði vegna veikinda, hjúkrunar og lyfjagjafa? Á að gera allt til að viðhalda lífinu og lengja það eða mætti maður velja að ljúka því í friði á sínum eigin forsendum?

Hver er munurinn á sjálfsmorði, sjálfsvígi, líknardrápi, líknandi meðferð eða líknandi meðferðarstöðvun, eða virkri dánaraðstoð? Hvað á að kalla þetta á íslensku ef gæta á eðlilegrar nærgætni og virðingar í garð manneskjunnar sem í hlut á? Hvar liggja mörkin, fyrir mismunandi aldur, ólíka einstaklinga, breytilegar aðstæður? Aldrei verður komið í veg fyrir sjálfsvíg, en mega til dæmis heilbrigðisstarfsmenn veita aðstoð við slíkt og þá hvernig, undir hvaða kringumstæðum og með hvaða skilyrðum gæti slíkt gerst?

Þessum spurningum verður velt upp í verkinu ,,Guð"

Leikarar:

Þórhallur Sigurðsson

Ragnheiður Steindórsdóttir

Sara Martí Guðmundsdóttir

Alexía Björg Jóhannesdóttir

Hjalti Rúnar Jónsson

Friðrik Friðriksson

Vilhjálmur B. Bragason

Sólveig Guðmundsdóttir