Listahátíð í Reykjavík
UM VERKIN:
YES YES YES
Nýsjálensk sýning um upplýst samþykki í kynlífi
Það er eitthvað að gerast á milli Jamie og Ari. Karin og Tom sömuleiðis. Þau eru stödd í sitt hvoru partýinu en sögurnar þeirra eru eins. Þar til þær eru það alls ekki.
Leiksýningin Yes Yes Yes er að hluta til heimildaleikhús og að hluta til opnar samræður. Sýningin er sérstaklega sköpuð fyrir ungt fólk sem er að takast á við snúin en brýn viðfangsefni á borð við heilbrigð sambönd, þrá og samþykki.
Eleanor Bishop og Karin McCracken (EBKM) hafa unnið saman frá árinu 2017 og hlotið fjölda verðlauna. Þær búa til samfélagslega þenkjandi og frumlegt leikhús fyrir alls konar áhorfendur. Þetta nýjasta verk þeirra blandar saman hrífandi einleik og þátttökuleikhúsi. Sýningin fer fram á ensku.
„Vitsmunaleg, næm og heiðarleg sýning sem einkennist af samhug og innsæi - og algjörlega laus við allar predikanir.” (Theatreview)
2. og 3.júní kl.20:00
NASSIM
Nýr aðalleikari á hverju kvöldi
„Kæri leikari, mig langar að sýna þér svolítið. Vissirðu að á farsí er nafnið mitt skrifað svona: „.RUOPNAMIELOS MISSAN itieh gÉ”?”
Frá íranska leikskáldinu Nassim Soleimanpour kemur ný og áræðin leikhúsupplifun. Á hverju kvöldi stígur nýr leikari á svið með Nassim en handritið bíður óséð í innsigluðum kassa sem leikarinn fær ekki aðgang að fyrr en sýningin hefst ...
Verkið NASSIM er byggt á eigin reynslu höfundarins sem skoðar krafta tungumálsins og hvernig það getur bæði sameinað okkur og sundrað. NASSIM er skemmtileg og hjartnæm leikhúsupplifun sem lætur engan ósnortinn. Verk Nassims Soleimanpour hafa verið þýdd á um 30 tungumál og verið leikin mörg þúsund sinnum um allan heim.
Á Listahátíð verða þrjár sýningar á NASSIM og leikararnir Ólafur Darri Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson taka stökkið út í óvissuna með Nassim sjálfum.
Höfundur & flytjandi: Nassim Soleimanpour
Flytjandi: Ath. Nýr leikari stígur á svið á hverju kvöldi.
5. júní Ólafur Darri Ólafsson
6. júní Halldóra Geirharðsdóttir
7. júní Ingvar E. Sigurðsson
Leikstjóri: Omar Elerian
Framkvæmdastjóri: Shirin Ghaffari
Hönnuður: Rhys Jarman
Hljóðhönnun: James Swadlo
Ljósahönnuður: Rajiv Pattani
Verkefnisstjóri: Michael Ager
Sviðsstjóri: Rike Berg
Ritstjórn handrits: Carolina Ortega & Stewart Pringle
Framleiðsla: Nassim Soleimanpour Productions / Bush Theatre
LISTAFÓLK: Nassim Soleimanpour (IR)Ólafur Darri Ólafsson (IS)Halldóra Geirharðsdóttir (IS)Ingvar E. Sigurðsson (IS)
EDEN
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Nína Hjálmarsdóttir kafa ofan í sköpunarsöguna og taka sér pláss í sjálfum aldingarðinum upprunalega. Eden er hinsegin fötlunarparadís sem afmiðjar norm samfélagsins og leyfir áhorfendum að finna fyrir hinu erótíska innra með sér.
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður, aktívisti og sviðslistakona sem hefur m.a. rannsakað kynverund og unað í lífi fatlaðs fólks. Fyrir frammistöðu sína í sýningunni Góða ferð inn í gömul sár var Embla tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem dansari ársins 2023.
Nína Hjálmarsdóttir er sviðshöfundur, fræðimaður og menningarrýnir. Nína stofnaði leikhópinn Sálufélagar árið 2015 sem hafa framleitt ýmis verk fyrir svið, ásamt því að vera einn stofnandi og framleiðandi hinsegin klúbbakvöldanna Sleikur. Rannsóknir Nínu í listsköpun og fræðum eru á vettvangi afnýlenduvæðingar og hinsegin fræða í listum, sem oft staðsetja Ísland og Norðrið í nýlendusamhengi.
Höfundar & leikarar: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir & Nína Hjálmarsdóttir
Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir
Danshöfundur: Rósa Ómarsdóttir
Framleiðandi: Davíð Freyr Þórunnarson, MurMur Productions
Sviðshönnuður: Tanja Huld Levý og Sean Patrick O'Brien
Tónskáld: Ronja Jóhannsdóttir
14.júní kl.20:00 og 15.júní kl.18:00