Stroke

Þegar Virginia vaknaði eftir heilablóðfall líktist það atriði úr trúðaleikriti. Verk- og málstol gerði hana að fanga í eigin líkama og hinar hversdagslegustu gjörðir urðu þrautabraut. Áfallið breytti öllu í lífi Virginiu og upplifunin af heilablóðfallinu hefur reynst erfitt að útskýra.

Fyrir áfallið starfaði Virginia í áraraðir sem atvinnutrúður á sjúkrahúsum í Glasgow og Edinborg. Núna situr hún hinumegin við borðið og veit hreinlega ekki hvort hún eigi að gráta eða hlægja að fáránleikanum. Í verkinu miðlar Virginia, sem trúðurinn Cookie, upplifun sinni og segir sína sögu.

Stroke er nýtt heimildaverk eftir Virginiu Gillard og sviðslistahópinn Trigger Warning. Mótleikari og sviðshönd er eiginmaður Virginiu Sæmundur Andrésson. Um búninga sér Brynja Björnsdóttir, um tónlist Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og lýsingu Jóhann Friðriksson. Leikstjórn og dramatúrgía er í höndum Andreu Elínar Vilhjálmsdóttur og Köru Hergils.