Leiksýningar

LEIKVERK

Athugið að allar sýningar í Tjarnarbíó hafa stuttan sýningartíma og því mikilvægt að bóka tímanlega

SUND

Sundferð er hlaðin skrifuðum og óskrifuðum reglum og fagurfræði. Á skiltum erum við beðin um að þvo okkur um allan líkamann og drekka vatn. Við störum ekki á líkama annarra í sturtum og tökum mismikinn þátt í pottaspjallinu. Sum okkar setja handklæðið alltaf á sama stað í handklæðarekkann. Margir eiga uppáhaldssturtu og ófrávíkjanlega rútínu. Sviðsverkið SUND er samsköpunarsýning unnin út frá sundlaugarmenningu Íslands og verða fimm flytjendur á sviði. Verkið verður sjónrænt og er listrænt staðsett á milli dansverks og leikverks þar sem gjörðir í leikmynd og leikur með vatn er í forgrunni. 

Frumsýnt 31.ágúst 2023.

PABBASTRÁKAR

Pabbastrákar er einlægt gamanverk þar sem föðurhlutverkið og þróun þess er skoðað. Hvernig hefur föðurhlutverkið breyst, hvernig elur karlmaður upp annan karlmann og hvernig pabbar verðum við? Pabbastrákar er leikhúsverk í uppsetningu sviðshöfundanna Hákons Örn Helgasonar og Helga Gríms Hermannssonar.

Kveikjan að verkinu varð til þegar Hákon uppgötvaði safn dagbóka frá pabba sínum allt frá árinu 1982 og hvernig dagbækurnar skorti allar lýsingar á tilfinningum og innhéldu einungis staðreyndir um dagleg verk hvers dags.

Bakgrunnur leikhópsins liggur að miklu leyti í gríni og verður því beitt óspart, enda er grín oft besta leiðin til að fjalla um alvarleg málefni.

Frumsýning 21.september 2023


STROKE

Stroke er nýtt heimildaverk eftir Virginiu Gillard og sviðslistahópinn Trigger Warning. 

Virginia er atvinnutrúður sem vann um árabil á sjúkrahúsum með langveikum börnum. Fimmtug fékk hún heilablóðfall og varð fyrir mál- og verkstoli svo nú er hún hinumegin við borðið. 

Í verkinu mun Virginia, sem trúðurinn Cookie, miðla upplifun sinni og segja sína sögu. Cookie á sviðið en allt efni sem fjallar um Virginiu sjálfa kemur fram í gegnum aðra miðla s.s. hljóðmynd (viðtalsbúta frá 2013), myndbrot af æfingum eða viðtöl við aðstandendur. Mótleikari Cookie á sviði er annar trúður, sem vinnur sem sviðmaður og er leikinn af eiginmanni Virginiu, Sæmundi. Hann hjálpar Cookie við að átta sig á hvar hún er stödd í sýningunni, vinnur sem hvíslari, breytir sviðsmyndinni og veitir henni tilfinningalegan stuðning. Saman leika trúðarnir eftir minningabrot frá fyrstu vikunum eftir heilablóðfallið til að gefa innsýn inn í hvernig það var fyrir Virginiu að takast á við áfallið.

Verkið er um 70 mín að lengd og er á ensku. 

Frumsýning er 12.október 2023


KANNIBALEN

Kannibalen er verk byggt á sannsögulegum atburðum. Tölvunarfræðingurinn Armin Meiwes virðist í fyrstu ofur venjulegur einstæður maður. Hann sýnir fólki mikinn náungakærleik og á það til að passa börn nágranna síns. Honum er annt um annað fólk, svo mjög, að hann á sér myrka fantasíu. Að borða aðra manneskju. Hann verður ástfanginn af ungum manni á netinu að nafni Bernd- Jürgens. Í nokkur ár hafa þeir báðir leitað að manneskju sem gæti uppfyllt þeirra innstu þrá og nú hafa þeir fundið hvorn annan. Því Bernd-Jürgens á sér líka myrka fantasíu. Að vera borðaður af annarri manneskju.

Mannætan er í senn tragísk ástarsaga og óþægileg hrollvekja. Undir grótesku yfirborðinu býr bæði hyldjúpur einmanaleiki og óbilandi þrá manneskjunnar eftir ást. Sýningin gerist að mestu leyti í myrkvuðum sal.

Frumsýning 19.janúar 2024.

FÉLAGSSKAPUR MEÐ ÓKUNNUGUM

Gunnar Smári missti foreldra sína ungur. Hann ólst upp á Tálknafirði og upplifði sterkt hvernig íslenskt samfélag getur brugðist við sorg af máta sem einkennist af meðvirkni og skorti á samtali við náungann. Verkið er gamansamur en einlægur einleikur sem segir frá ungum manni sem hefur einangrað sig því hann veit ekki hvernig hann á að takast á við sorg.

Frumsýning verður 18.apríl 2024


ÁFRAMHALDANDI SÝNINGAR

ÉG LIFI ENN-SÖNN SAGA.

Vegna gríðarlegrar eftirspurnar, verður sýningin aftur sett á svið á vormánuðum. Sýningin hefur kveikt á miklum umræðum og hefur verið stappfullt á allar umræður eftir sýningar í vetur. Yfir 30 manns stíga á svið í þessari ljóðrænu sýningu sem fjallar um síðasta æviskeiðið.

Endurfrumsýnt 7.mars 2024


HVAÐ EF SÓSAN KLIKKAR

Gunnella Hólmarsdóttir kemur aftur með stuð-saumaklúbba sýninguna ,,Hvað ef sósan klikkar” þar sem hún býður áhorfendum í ,,beina útsendingu" í sjónvarpssal þar sem hún ætlar að elda hamborgarhrygg og allt meðfylgjandi á 60 mínútum og líta óaðfinnanlega út á meðan hún gerir það. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það fer.

Endurfrumsýnt 12.janúar 2024

LÓNIÐ

Hin sjónræna, existensíalíska og húmoríska sýning Lónið kemur aftur á svið einu sinni enn! Sýning skartar nýjum leikurum og sviði Tjarnarbíós er breytt í baðlón. Persónurnar þrjár ræða á fyndinn hátt hversu erfið og flókin tilveran sé á meðan þau baða sig í Lóninu.

Endursýnt 1.október 2023

HULIÐ

Við höfum flest upplifað eitthvað óútskýranlegt. Þú hugsaðir til vinkonu þinnar og hún hringdi stuttu seinna. Þú varst utan við þig við aksturinn en eitthvað hnippti í þig rétt áður en þú keyrðir á. Þú heyrðir manninn þinn snúa lyklinum í skránni og ganga inn en svo kom hann ekki heim fyrr en tíu mínútum seinna.
Höfundur verksins „Hulið“ ólst upp með konum sem sáu lengra en nef þeirra náði, hlustuðu á náttúruna, töluðu við huldar persónur og virtust fá hjálp og aðstoð úr öllum áttum.
Þetta magnaða og einlæga leikverk kveikir í lönguninni til að vita meira um hulin öfl, huldufólk og tengjast náttúrunni. Enda, þegar vel er að gáð, krefst náttúran þess að við berum virðingu fyrir henni.

Endurfrumsýnt 7.desember 2023